Þetta kemur fram á fréttavef RÚV þar sem sagt er að verslunin muni opna fyrir jólin 2015.

Verslunarrisinn hefur um nokkurt skeið athugað hvort fýsilegt sé að opna verslun hér á landi. Munu forsvarsmenn félagsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að svo sé og hafa fest kaup á verslunarhúsnæði við Kauptún í Garðabæ.

„Já við höfum fengið að heyra það að þeir vilji koma í Garðabæinn, hingað í Kauptúnið. Valið stóð á milli Kauptúnsins og Korputorgs. Og við höfum fengið þessar upplýsingar og erum auðvitað himinánægð með það,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, í samtali við RÚV.

Tekjurnar meira en sjöföld landsframleiðsla Íslands

Tekjur Costco árið 2013 voru 105 milljarðar bandaríkjadala. Til samanburðar var verðmæti allrar vörur og þjónustu sem öll íslensk fyrirtæki, einstaklingar og opinberar stofnanir framleiddu eða veittu samanlagt að jafnvirði 14,6 milljarða bandaríkjadala sama ár. Tekjur Costco voru því um 7,5 sinnum meiri en landsframleiðsla Íslands í fyrra.

Ragnheiður Elín var vongóð

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði í samtali við Viðskiptablaðið þann 4. desember síðastliðinn að henni þætti líklegt að Costco myndi ákveða að hefja starfsemi hér á landi. „Ég er að vonast eftir góðum fréttum þaðan. Maður heyrir af þeirra síðustu heimsókn að þeir séu með umsóknir inni varðandi það að skoða lóðir og annað og ég er vongóð um að þeir komi," sagði Ragnheiður Elín.

Spurð hvort hún teldi íslenskt lagaumhverfi vera fráhrindandi fyrir Costco svaraði hún að það kynni að vera. Í meginatriðum væri umhverfi í matvöruverslun þó áþekkt því sem gengur og gerist í Evrópu. „Ef ég set á mig hatt ráðherra samkeppnismála, þá held ég að það sé mjög gott fyrir verslun í landinu að fá samkeppni úr þessari átt. Ég held að það yrði öllum til góðs. Ég tel að það verði neytendum til mikilla hagsbóta og að við munum sjá það í auknu vöruúrvali og vonandi í lækkun vöruverðs. Það er það sem við erum öll að stefna að.“