*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 3. september 2018 15:10

Costco seldi fyrir 86 milljónir á dag

Íslendingar keyptu í Costco fyrir 8,7 milljarða króna fyrstu hundrað dagana frá opnun verslunar félagsins í Kauptúni í fyrra.

Ingvar Haraldsson
Margt var um manninn í Costco fyrstu dagana eftir opnun verslunar félagsins hér á landi á síðasta ári.
Haraldur Guðjónsson

Costco á Íslandi velti 8,65 milljörðum króna á rúmlega þriggja mánaða tímabili frá opnun verslunar félagsins í Kauptúni þann 23. maí í fyrra og fram til 31. ágúst sama ár samkvæmt nýbirtum ársreikningi Costco á Íslandi sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Ársreikningur Costco nær frá 1. september 2016 til 31. ágúst 2017.

Velta félagsins á dag samsvarar um 86 milljónum króna á því 101 daga tímabili sem leið frá opnun verslunarinnar í maí í fyrra til ágústloka. Sé veltan fyrstu mánuðina umreiknuð í heilsársveltu samsvara hún ríflega 30 milljörðum króna. Þó kann að vera að meðalvelta Costco hafi eitthvað dregist saman síðan reksturinn hófst.

Til samanburðar velti smásöluhluti Festi sem samanstendur af Krónunni, Nóatúni, Elko og Bakkanum vöruhóteli samtals 39,8 milljörðum króna á síðasta rekstrarári. Þá velti stærsta smásölufyrirtæki landsins Hagar, sem rekur verslanir Bónuss og Hagkaupa auk fjölda annarra verslana á borð við Debenhams, Zöru og Útilíf, samtals 73 milljörðum króna á síðasta rekstrarári. 

Costco tapaði 372 milljónum

Rekstrartap Costco nam 635 milljónum króna á síðasta reikningsári en alls var 372 milljón króna tap af rekstri Costco á Íslandi á rekstrarárinu. Í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningnum kemur fram að tapið hafi verið viðbúið vegna kostnaðar við opnun verslunarinnar og hafi verið í samræmi við áætlanir stjórnenda. 

Kostnaðarverð seldra vara nam 7,7 milljörðum króna á tímabilinu en þar af námu kaup frá móðurfélagi Costco á Bretlandi 5,9 milljörðum króna. Framlegð rekstrarársins nam 912 milljónum króna.

Rekstrarkostnaður nam 1,5 milljörðum króna, þar af námu laun og launatengd gjöld 860 milljónum króna, annar rekstrarkostnaður 593 milljónum króna og afskriftir 95 milljónum króna. 

Með tæplega 400 starfsmenn

Í lok reikningsársins störfuðu 397 fyrir Costco á Íslandi, þar af voru 216 í  starfsmenn í fullu starfi og 181 í hlutastarfi. Laun og launtengd gjöld á Bretlandi námu 263 milljónum króna á árinu en laun og launatengd gjöld hér á landi voru 597 milljónir króna.

Hrein fjármagnsgjöld voru jákvæð um 144 milljónir króna þar sem fjármunatekjur námu 62 milljónum króna og gengismunur var hagstæður um 81 milljón króna.

Húsnæði Costco metið á 6 milljarða

Í lok reikningsársins voru eignir félagsins metnar á 11 milljarða króna. Þar af var bókfært verð lóðar og fasteignar félagsins í Kauptúni um 5,2 milljarðar króna og áhöld og innréttingar voru bókfærðar á 833 milljónir króna. Félagið átti vörubirgðir sem metnar voru á 2,2 milljarða króna og handbært fé upp á 2,6 milljarða króna.

Af ársreikningnum má einnig ráða að opnun verslunarinnar hafi verið fjármögnuð með 7,8 milljarða hlutafjárframlagi frá móðurfélaginu Costco Wholesale International Inc. en langtímaskuldir íslenska félagsins voru engar.

Eigið fé Costco á Íslandi var 7,3 milljarðar króna í lok reikningsársins og skammtímaskuldir námu 3,6 milljörðum króna. Þar af nam viðskiptaskuld við Costco 1,4 milljörðum króna og viðskiptaskuldir við aðra aðila 1 milljarði króna.

Veltan á Íslandi 0,2% af veltunni á heimsvísu

Costco er næst stærsta smásöluvörukeðja heims og rekur um 760 vöruhús á heimsvísu. Costco velti um 129 milljörðum dollara á rekstrarárinu sem lauk í ágúst 2017, sem samsvarar um 14.000 milljörðum króna og hagnaðist um 2,6 milljarða dollara á rekstrarárinu, sem nemur um 282 milljörðum króna. Á þeim þrem mánuðum sem uppgjör félagsins nær til hér á landi nam heildarvelta Costco 41 milljarði dollara, um 4.500 milljörðum króna. Velta félagsins á Íslandi nam því um 0,2% af heildarveltu félagsins á tímabilinu.

Stikkorð: Costco uppgjör