*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 4. ágúst 2017 08:18

Costco selur 15% alls eldsneytis

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Ísam segir samruna í heildsölum á Íslandi kunni að verða afleiðing af breyttri vígstöðu á íslenskum markaði.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Hlutdeild vöruhúsakeðjunnar Costco í eldsneytissölu hér á landi er þegar orðin um 15% eftir að hafa verið opin í rúma tvo mánuði að því er Morgunblaðið greinir frá. Forstjóri ÍSAM, Bergþóra Þorkelsdóttir, segir að vegna samkeppninnar frá Costco kunni að verða samruni í heildsölunni.

„Nú þegar eru smásöluaðilar að þjappa sér saman. Þar koma saman ólík smásölustig, eins og olíufélög og verslanakeðjur,“ segir Bergþóra. „Opinberar tölur sýna að salan hefur dregist saman hjá vissum keðjum. Það er ekki tímabært að draga miklar ályktanir af fyrstu vikunum hjá Costco. Það er þó ljóst að fyrirtækið mun hafa afgerandi áhrif. Spurningin er hvernig þau munu birtast.

það verða að koma í ljós hvernig Íslendingar versla í Costco til framtíðar, en vegna fyrirtækisins gæti innkaupamynstur verið að breytast.

„Vígstaðan gagnvart erlendum birgjum hefur breyst. Við erum að keppa við annan stærsta smásöluaðila í heimi og stöndum því frammi fyrir gjörbreyttri markaðsstöðu,“ segir Bergþóra og vísar í fjölbreytt vöruúrval fyrirtækisins, allt frá snyrtivörum til bíldekkja.

„Við erum að keppa við innkaupamátt sem er allt annar en hefur nokkurn tíman verið hér. Við brýnum fyrir okkar birgjum að þeir þurfi að velta því fyrir sér hvernig þeir ætla að takast á við það.“