Vænta má þess að sala Costco á eldsneyti á einu ári muni nema um 30 milljónum lítra, ef tekið er mið af sölunni frá því að Costco var opnað í maí síðastliðum. Það nemur um 10% af allri bensínsölu á landinu en um er að ræða um tvöfalt meiri sala en upphaflegar áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að því er Morgunblaðið greinir frá.

Út frá þeirri tölu má áætla að tekjur Costco af eldneytissölunni muni nema um fimm milljörðum króna á ári. Ef miðað er við að bygging bensínstöðvarinnar hafi kostað á bilinu 150 til 200 milljónir króna og 5 krónur á hvern lítra skili sér í framlegð til félagsins má ætla að byggingarkostnaðurinn greiðist upp á um einu ári.

Álagning olíufélaganna er talin vera um 30 krónur á hvern lítra, en Skeljungur er talinn leggja einungis um 15 krónur á hvern lítra sem seldur er til Costco. Svar íslensku olíufélaganna hefur verið lággjaldastöðvar líkt og Dælan hjá N1, Orkan X hjá Skeljungi og svo hefur Atlasolía verið með lægra verð á tveimur stöðvum í nágrenni Costco.