Í nýrri greiningu frá FÍB, félagi íslenskra bifreiðaeigenda, kemur fram að varlega áætlað megi gera ráð fyrir að innkoma Costco á olíumarkaðinn hafi lækkað eldsneytisverð að meðaltali á landinu öllu um 10 krónur á lítra.  Þessi 10 krónu lækkun sparar neytendum 3,5 milljarða króna á einu ári eða nálægt 10.300 krónur á hvern íbúa á Íslandi.

„Áhrif samkeppninnar frá Costco er  berlega að skila sér inn á markaðinn.  Þróun bensínverðsins styður það sem FÍB hefur ítrekað bent á og samkeppnisyfirvöld staðfest með mjög ítarlegum samantektum á olíumarkaðnum, að íslenskir neytendur hafa þurft að lifa við tugum króna hærri álagningu á bílaeldsneyti samanborið við neytendur í nágrannalöndum,“ segir FÍB.

Jafnframt segir að meðal þeirra breytinga sem orðið hafa á markaðnum er að afsláttardögum á hefðbundnum stöðvum hefur fjölgað verulega frá miðju ári.  Einnig hafi FÍB heimildir fyrir því að víða hafi afslættir til hópa og fyrirtækja aukist á síðustu mánuðum.

Íslensku olíufélögin hafa flest svarað samkeppninni við Costco með beinum hætti. N1 með Dælunni, Skeljungur með Orkunni X og Atlantsolía með lægra verði á fimm stöðvum.

Ennfremur segir að verð hafi mest lækkað í nágrenni við Urriðaholt í Garðabæ en einnig víðar á landinu.  Að gamla slagorð Orkunnar, „Orkan alltaf ódýrust“ eigi ekki lengur við.  Costco hafi verið með hagstæðasta bensínverðið frá opnun og síðustu vikurnar hafa Orkan X og Dælan skipst á um að vera með næst lægsta verðið.

Þá segir að olíumarkaðurinn sé á tánum og framundan sé miklar breytingar á landslagi olíuviðskipta.  N1 og Olís séu að tengjast verslunarkeðjum ef Samkeppniseftirlitið samþykkir.

N1 hefur skrifað undir kaup á Festi sem m.a. rekur verslanir Krónunnar.  Hagar, sem reka m.a. Bónus og Hagkaup, hafa skrifað undir kaup á öllu hlutafé í Olís.  Skeljungur hugðist um tíma að kaupa 10-11 en það gekk til baka. Einnig hafi nýlega verið tilkynnt um verulegar skipulagsbreytingar hjá Skeljungi.  Skeljungsstöðvarnar verða lagðar af og færðar undir vörumerki Orkunnar og 29 starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum. Fram kom hjá forstjóra Skeljungs að framvegis yrði áhersla fyrirtækisins fyrst og fremst á að bjóða viðskiptavinum ódýrt bensín. Fyrir stuttu var sagt frá því í fréttum að eigendur Atlantsolíu væru að kanna mögulega sölu á fyrirtækinu.