*

föstudagur, 18. júní 2021
Innlent 25. maí 2017 13:03

Costco þyrfti að opna sérverslun

Breytt frumvarp um afnám áfengiseinkasölu ríkisins er að mati flutningsmanns með breiðari stuðning á þingi en áður.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Pawel Bartoszek, einn flutningsmanna frumvarps um afnám einkasölu ríkisins á áfengi, segir miklar breytingar hafa orðið á frumvarpinu í allsherjar- og menntamálanefnd. Það sé nú þannig úr garði gert að í raun sé verið að taka eins lítið skref frá núverandi stöðu og hugsast getur fyrir utan það grundvallaratriði að ríkiseinokunin á áfengissölu verði afnumin.

„Það er augljóst að allar þessar breytingartillögur eru gerðar til þess að minnka skaðleg áhrif af áfengisneyslu, samanborið við fyrri útgáfur frumvarpsins,“ segir Pawel sem segist stoltur af þeirri vinnu sem farið hefur verið í að reyna að sætta ólík sjónarmið.

„Margir eru tilbúnir að víkja frá ríkiseinokun á áfengissölu, en finnst of stórt skref að setja það í matvöruverslanir. Svo nú er bara að sjá hvernig fólki líst á þessa útfærslu. Ef við náum ekki að koma þessu í atkvæðagreiðslu fyrir lok þings nú, og það verður umræða um þetta í samfélaginu í sumar og það kemur á daginn að fólk sé tilbúið að styðja við þetta í núverandi mynd, er ekki útilokað að vinna með það þá áfram á næsta þingi.“

Breiðari stuðningur en áður

Pawel segist vera alveg raunsær á það að einungis örfáir þingfundir séu eftir af þessu þingi svo ekki sé víst að frumvarpið komi til atkvæðagreiðslu.

„Ég met það allavega svo að stuðningurinn innan stjórnarflokkanna ætti að vera orðinn breiðari en hann var,“ segir Pawel en fyrir utan þingmenn stjórnarflokkanna þriggja eru þingmenn úr Pírötum meðal flutningsmanna frumvarpsins. „Ég held að það ætti góðan séns í atkvæðagreiðslu ef það kæmi til hennar.“

Söluform ekki lengur á forræði sveitarfélaga eingöngu

Frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram, þar sem gert var ráð fyrir að ÁTVR yrði lagt niður í núverandi mynd, og sveitarfélögum yrði í sjálfsvald sett hvort þau leyfðu áfengissölu í sérrýmum almennra verslana eða skilyrtu hana við sérverslanir, hefur frumvarpið nú tekið miklum breytingum í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar.

Pawel segir aðspurður að áfengisfrumvarpið eins og það líti út núna veiti ekki lengur sveitarfélögum sjálfsvald til að heimila verslunum að selja áfengi í afmörkuðum rýmum innan verslana. Salan þyrfti alla jafna að fara fram í sérverslunum.

Vikið frá skilyrði um sérverslun í fámenni

„Ef Costco vill selja almenningi áfengi samkvæmt þessum frumvarpsdrögum þyrfti fyrirtækið í raun að opna sérstaka verslun innan vöruhússins, þar sem greiðslan færi fram,“ segir Pawel, en frekari útfærslur, eins og með hvort verslunin þyrfti sérinngang eða annað yrði útfært í reglugerð.

Pawel segir kaflann í breyttu frumvarpi um ákvörðunarvald sveitarfélaga um áfengissölu á sínu svæði vera með fyrirmynd í reglum um leigubíla. „Fjármálaráðherra getur ákveðið í samráði við tiltekið sveitarfélag, sem telur að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir sérverslun á sínu svæði, að heimila að selja það í afmörkuðu rými innan matvöruverslunar, eða yfir búðarborðið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.