Costco Wholesale hefur undirritað kaupsamning sem tryggir verslun fyrirtækisins landsvæði og byggingu í Kauptúni í Garðabæ. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Áætlað er að hefja þar verslunarrekstur fyrir meðlimi auk þess að reka bensínstöð undir merkjum Costco. Í tilkynningunni segir að umsókn um breytingar á skipulagi verði skilað inn eins fljótt og auðið er, en stefnt sé að opnun vöruhúss fyrir meðlimi sumarið 2016.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu frábæra tækifæri og getum ekki beðið eftir að opna á Íslandi. Þetta er góður markaður fyrir okkur. Við hlökkum til að vinna að því með Gunnari Einarssyni bæjarstjóra og bæjaryfirvöldum Garðabæjar að gera þetta verkefni að veruleika eins fljótt og auðið er til að geta svo opnað verslunina sumarið 2016,“ segir Steve Pappas, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri Costco yfir Bretlandi og Íslandi.

Hann segir að fyrirtækið muni ráða 160 starfsmenn til starfa í fyrstu en þeir verði að minnsta kosti orðnir 250 eftir þrjú ár. Ráðningar hefjist líklega í byrjun árs 2016.