Costco á Íslandi seldi vörur fyrir 21,2 milljarða króna á síðasta rekstrarári sem nær frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2018. Upphæðin samsvarar um 58 milljónum króna á dag eða tæplega 1,8 milljörðum króna á mánuði. Costco rekur eina verslun og bensínstöð í Kauptúni í Garðabæ. Til samanburðar velti matvörukeðjan Krónan tæpum 28 milljörðum króna á síðasta rekstrarári.

Costco á Íslandi keypti vörur af tengdum félögum fyrir 8,1 milljarð króna en alls nam kostnaðarverð seldra vara 18,3 milljörðum króna. Því nam framlegð félagsins 2,88 milljörðum króna.

Rekstrartap Costco á Íslandi nam 47 milljónum króna. Hins vegar var hagnaður af rekstri félagsins í heild upp á 139 milljónir króna vegna gengishagnað upp á 185 milljónir króna og jákvæðra fjármagnstekna upp á 41 milljón króna.

Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 295 milljónir króna en handbært fé félagsins lækkaði úr 2,18 milljörðum króna í 1,8 milljarða króna á reikningsárinu.

Starfsmenn hjá Costco voru 279 en þar af voru 193 starfsmenn í fullu starfi og 86 í hlutastarfi. Laun og launatengd gjöld námu tveimur milljörðum króna. Þar af voru launagreiðslur á Bretlandi vegna Costco á Íslandi 163 milljónir króna.

Á fyrsta uppgjörsári Costco, sem náði frá september 2016 til ágúst 2017 var rekstrartap upp á 635 milljónir króna og tap á félaginu í heild upp á 372 milljónir króna. Hafa ber í huga að verslun Costco opnaði í maí 2017 og var því einungis opin í ríflega þrjá mánuði af því reikningsári.

Fasteignir metnar á fimm milljarða

Eigið fé félagsins námu 7,5 milljörðum króna, eignir 9,4 milljörðum króna og skuldir 2 milljörðum króna í lok ágúst 2018. Af eignum munaði mest um fasteignir félagsins í Kauptúni en bókfært virði þeirra nemur fimm milljörðum króna.