„Fulltrúar Costco hafa nefnt bensínstöð og það mun eins og aðrar óskir þeirra koma inn í umræðuna hjá okkur og við munum auðvitað setja allar varúðarráðstafanir varðandi umhverfið inn í þá umræðu,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, í samtali við Morgunblaðið .

Líkt og greint hefur verið frá mun bandaríski smásölurisinn Costco opna verslun í Kauptúni á næsta ári. Verslunum fyrirtækisins fylgja gjarnan bensínstöðvar og rekur það um 400 slíkar víðs vegar um Bandaríkin. Bensínverð fyrirtækisins hefur verið með ódýrasta móti í samanburði við annað bensín á markaðnum.

Fram kemur í Morgunblaðinu að taka þurfi tillit til umhverfissjónarmiða þegar tekin verður afstaða til þess hvort fyrirtækinu verður veitt heimild fyrir opnun bensínstöðvar á svæðinu. Stefna Garðabæjar hafi verið sú að í Urriðaholti rísi umhverfisvæn byggð þar sem rík áhersla sé lögð á umhverfismál. Verði umsókn Costco samþykkt verða það hins vegar ekki fyrstu dælurnar á svæðinu þar sem Toyota fékk leyfi fyrir slíkum sumarið 2012.