Bandaríska veðlánafyrirtækið Countrywide Financials, sem hefur átt í miklum greiðsluerfiðleikum undanfarin misseri, vinnur að annarri björgunaráætlun félagsins á skömmum tíma sökum áframhaldandi lausafjárþurrðar á fjármálamörkuðum og undirmálslánakrísunnar vestanhafs, að því er bandaríska dagblaðið New York Post greindi frá í gær.

Blaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum að Countrywide Financials hafi leitað til Goldman Sachs og lögfræðifyrirtækisins Watchell Lipton Rosen & Katz um að veita félaginu aðstoð um að setja saman margra milljarða Bandaríkjadala fjárhagsaðstoð til að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti. Á þessum tímapunkti er þó ekki enn hægt að fullyrða um hvaða félög Countrywide hefur biðlað til um að fjárfesta í fyrirtækinu. Hins vegar telja heimildarmenn blaðsins að hópurinn samanstandi meðal annars af bandarísku fjárfestingarbönkunum J.P. Morgan Chase og Citigroup, en auk þess hafa ýmsir vogunarsjóðir lýst yfir áhuga á því að fjárfesta í veðlánafyrirtækinu.

Samkomulag gæti náðst í lok þessa mánaðar og myndi því að öllum líkindum svipa til þess samkomulags sem félagið gerði við Bank of America (BofA) í lok ágúst. BofA greindi þá frá því að bankinn hefði keypt hlut í Countrywide Financial fyrir tvo milljarða Bandaríkjadala, en þeim kaupum fylgdi hins vegar ekki atkvæðaréttur.