Undanfarið hafa óveðursský legið yfir flugiðnaðinum á alþjóðavísu vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Segja má að krísan hafi orðið enn dýpri fyrr í vikunni þegar fréttir bárust af því að flugfélög víða um heim væru byrjuð að fella niður flug og grípa til fleiri aðgerða sem miðast við að draga úr kostnaði, til þess að bregðast við sífellt minni eftirspurn vegna veirunnar.

„Ég tel að framundan sé barátta þar sem þau hæfustu muni lifa af," lét Alan Joyce, forstjóri ástralska flugfélagsins Qantas, hafa eftir sér er hann var inntur eftir sýn sinni á stöðu mála innan fluggeirans. Flugfélagið greindi einmitt frá áformum um stórtækar sparnaðaraðgerðir síðastliðinn þriðjudag, sem fela m.a. í sér að fjórðungur flugferða félagsins verði felldur niður og starfsfólk fari í launalaust leyfi, auk þess sem forstjórinn muni starfa launalaust næstu þrjá mánuði. Joyce kvaðst bjartsýnn á að Qantas næði að komast í gegnum þessa erfiðleika, en það sé þó ljóst að einhver flugfélög muni neyðast til að leggja niður starfsemi sína.

Afkomuspár American Airlines og Delta í ruslið

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian, sem hefur átt í nokkrum fjárhagsvandræðum síðustu misseri, boðaði á sama tíma niðurfellingu á um 3.000 flugferðum fram í miðjan júní af sömu ástæðu en um var að ræða 15% af flugferðum félagsins á umræddu tímabili. Þá lagði félagið niður allt flug til og frá Ítalíu vegna veirunnar, en Ítalía er það land í Evrópu sem verst hefur orðið fyrir barðinu á COVID-19 veirunni.

Fljótlega eftir opnun markaða í New York umræddan þriðjudag felldu bandarísku flugfélögin American Airlines og Delta Air Lines afkomuspár sínar úr gildi sökum áhrifa veirunnar. Delta greindi jafnframt frá því að flugframboð félagsins yrði minnkað um 25% í millilandaflugi og 15% í innanlandsflugi.

Ferðabann Trump bætir gráu ofan á svart

Ferðabannið sem Donald Trump lagði á í nótt gerir flugfélögum enn erfiðara fyrir, sérstaklega þeim evrópsku . Til að mynda hafa hlutabréf Norwegian lækkað um 20%, niður í 0,72 evrur á hlut frá opnun markaða í morgun.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .