Hið endurreista Wow air greindi frá því í síðasta mánuði að félagið myndi á næstunni hefja frakt- og farþegaflug frá Ítalíu. Líkt og áður segir hefur COVID-19 veiran haft mikil áhrif á Ítalíu og ríkir nú sóttkví í öllu landinu, sem felur m.a. í sér að íbúum er ráðlagt að halda sig heima. Ljóst er að þetta gæti sett strik í reikning Wow-liða.

Sömuleiðis hefur legið nokkuð lengi í loftinu að lággjaldaflugfélagið Play hefji sölu flugferða, en það er ljóst að veiran gæti haft áhrif á áform félagsins, enda erfitt að koma inn sem nýtt flugfélag á markaðinn á meðan þessi mikla óvissa ríkir. Á móti má þó benda á að það gæti verið jákvætt fyrir félagið að það sé ekki enn komið í loftið og það neyðist því ekki til að fljúga með hálftómar vélar, með tilheyrandi kostnaði. Auk þess hefur olíuverð lækkað verulega undanfarið og gæti það verið vatn á myllu félagsins þegar það hefur flugrekstur. En það má þó ætla að ekki sé svigrúm fyrir óbreytt ástand til lengri tíma, enda þótt félagið sé fjármagnað eins og staðan er í dag, getur reynst erfitt að halda uppi tekjulausu félagi til lengri tíma.

Forsvarsmenn Play vildu ekki tjá sig um málið er Viðskiptablaðið fór þess á leit. Þá náðist ekki í forsvarsmenn Wow air við gerð fréttarinnar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .