Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár var 584 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst í mars og voru viðskipti 5% fleiri en í mars fyrir ári síðan, þegar 557 kaupsamningum var þinglýst. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í Hagsjánni er bent á að búast hefði mátt við því að viðskipti drægjust eitthvað saman í ljósi aðstæðna. Þær virðist þó ekki hafa haft teljandi áhrif. Þó beri að hafa í huga að hluti viðskiptanna hafi líklega átt sér stað í febrúar þar sem nokkur tímatöf sé frá undirritun kaupsamnings þar til þinglýsingu sé lokið.

„Það sem af er ári hefur 1.904 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu verið þinglýst sem er 5% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Árið fer því nokkuð vel af stað á íbúðamarkaði og er mánaðarlegur meðalfjöldi viðskipta hærri en það sem hefur sést á allra síðustu árum.

Neysla almennt hefur tekið ákveðnum breytingum í kjölfar útbreiðslu Covid-19, en þær aðstæður virðast ekki hafa haft áhrif á íbúðamarkað, í það minnsta enn sem komið er. Mælingar Gallup á fyrirhuguðum stórkaupum landsmanna sýndu fram á minni líkur á stórkaupum í mars en þó aðallega vegna færri fyrirhugaðra utanlandsferða. Fólk virðist jafnvel huga að fasteignakaupum í auknum mæli nú en áður,“ segir í Hagsjánni.