Kvika banki bar sigur úr býtum hvað varðar arðsemi eiginfjár samanborið við hina bankana. Ekki komst Kvika þó áfallalaust í gegnum faraldurinn. Arðsemi eiginfjár dróst talsvert saman milli ára, úr 23% á fyrri hluta ársins 2019 í 11,8% á fyrri hluta árs 2020. Niðurfærsla bankans, sem jókst talsvert milli ára, kom að miklu leyti til vegna faraldursins. Kvika banki metur sem svo að bein áhrif af Covid-19 nemi um 500 milljónum króna en ekki er reynt að meta óbeinu áhrifin.

Aðspurður út í lán félagsins til ferðaþjónustunnar ítrekar Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, að veð lánanna séu traust. Ríflega helmingur af lánum félagsins til ferðaþjónustunnar er kominn til vegna hótelreksturs en um 80% af lánum til geirans eru með eigið fé yfir 40%. „Hvað varðar afkomuna okkar höfum við ekki miklar áhyggjur af ferðaþjónustunni, þetta er lágt hlutfall af litlu lánasafni og lánin eru vel tryggð. Að sjálfsögðu er þetta slæmt fyrir reksturinn að það vanti tekjur en ferðaþjónustan mun koma aftur til landsins,“ segir Marinó.

Lán í vanskilum hafa ríflega tvöfaldast á þessu ári, farið úr einu prósenti í 2,2%. Um 77% af lánum félagsins eru sögð vera með óbreytta lánsáhættu frá því að þau voru veitt, það hlutfall stóð í 81,3% í upphafi árs.

Stöðug áhersla á fjárfestingabankastarfsemi

Frá árinu 2017 hafa þóknanatekjur sem hlutfall af heildarrekstrartekjum félagsins vaxið úr 56% í tæplega 73%. Bankinn hefur tekið töluvert stökk á þessu ári en hlutfallið hefur hækkað um átta prósentustig. Kvika er nú með um 514 milljarða króna í sjóðstýringu en bankinn stýrði um 121 milljarði í lok árs 2016. „Við höfum lagt upp með sömu hlutina undanfarin ár og sjáum enga ástæðu til að breyta hvað það varðar. Því tel ég að þóknanatekjur verði áfram hlutfallslega miklar, samanborið við vaxtatekjur,“ segir Marinó.

Fram kom á fjárfestafundi félagsins að Kvika banki hyggst breyta nafni Júpíters, sem er dótturfélag Kviku, í Kviku eignastýringu. Marinó segir ástæðuna vera hlut af samþættingu félagsins á eigna- og sjóðstýringarstarfseminni. Í kjölfar breytinganna verður 321 milljarður króna í stýringu hjá Kvika eignastýringu, um 62% af eignastýringu Kviku banka.

Fyrr í sumar tók dótturfélag Kviku, KKV Investment Management, við stýringu á tveimur breskum veðlánasjóðum. Hrein eign sjóðanna nemur um 70 milljörðum króna en um 22 starfsmenn Kviku starfa í London. Að auki leggur félagið aukna áherslu á fjártæknimarkaðinn en Kvika hefur gefið út viljayfirlýsingu á kaupum á Netgíró, Marinó segir að viðræður standi yfir.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .