*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 1. nóvember 2020 14:15

COVID setur mark sitt á kosningarnar

Markaðir í Bandaríkjunum hallast nú að Biden, en vilja umfram allt skýra og óumdeilda niðurstöðu sem fyrst.

Júlíus Þór Halldórsson
Þótt kjördagur sé á þriðjudag hafa hátt í 100 milljón Bandaríkjamenn þegar greitt atkvæði í komandi forsetakosningum, vel yfir helmingur kjörsóknar síðustu kosninga.
epa

Flest bendir nú til þess að Joe Biden verði næsti forseti Bandaríkjanna. Spálíkan vikuritsins Economist gefur honum 95% sigurlíkur, og tölfræði- og greiningarmiðillinn FiveThirtyEight gefur honum 90% líkur.

Fari hins vegar svo að talning atkvæða taki óvenju langan tíma sökum hærra hlutfalls utankjörfundarog póstlagðra atkvæða en áður, og ekki verði útséð um niðurstöðurnar svo vikum skipti, eða jafnvel skapist djúpstæðar deilur um þær, kann það að hafa neikvæð og langvarandi áhrif á þjóðina, og heiminn allan.

Markaðir hræðast slíka óvissu hvað mest, en þeir hafa einnig tekið að líta efnahagsstefnu Biden jákvæðari augum eftir því sem umfang og áhrif heimsfaraldursins hafa komið betur í ljós.

Dalurinn líklega sterkari undir Trump
Bandaríkjadalurinn er líklegur til að styrkjast sigri Trump, sem efndi til viðskiptastríðs við Kína á kjörtímabilinu sem er að líða, og hefur almennt talað á jákvæðari hátt um tolla og aðra verndarstefnu en Biden, og fyrirrennarar hans úr röðum Repúblíkana.

Atvinnugreinar sem líklegar eru til að koma betur út með Trump í Hvíta húsinu eru meðal annars tæknirisar, varnarmálafyrirtæki, fjármálafyrirtæki og mengandi orkuiðnaður. Sjálfbær orkuiðnaður og greinar tengdar innviðauppbyggingu eru meðal þeirra sem gætu blómstrað undir Biden.

Biden hefur meðal annars heitið því að afturkalla skattalækkanir Trump á fyrirtæki og hálaunafólk, en segir skatta ekki munu hækka á hinn hefðbundna launþega. Á móti hyggst hann setja saman nýjan björgunarpakka vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins.

Bent hefur verið á að faraldurinn virðist vera einn stærsti áhrifaþáttur gegn líkum á sigri Trumps. Viðskiptatímaritið Fortune tók saman þróun stuðuls forsetans núverandi á veðmálasíðum, og fjölda greindra smita, og skemmst er frá því að segja að hreyfingar þeirra fylgdust náið að.

Markaðir hrifnari af Biden
Framan af virtust markaðir ekki vera sérstaklega hrifnir af Biden, enda hærri skattar og meiri ríkisútgjöld almennt ekki sérstaklega vinsæl á fjármálamörkuðum. Alveg fram á síðasta sumar virtust þeir vera í besta falli tvístíga gagnvart varaforsetanum fyrrverandi.

Síðan þá hefur hinsvegar komið betur í ljós hversu mikil og langvinn áhrif heimsfaraldursins verða á efnahaginn, og greinendur telja nú að væntanlegar björgunaraðgerðir Biden muni vega upp neikvæð áhrif skattahækkana, og líklega gott betur.

Óviljugleiki Trump til að lofa friðsamlegu valdaafsali, tapi hann kosningunum, hefur síðan aukið enn á óróleika markaða gagnvart honum, enda fátt sem markaðir hræðast meira en óvissa.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.