Sólbaðsstofan Sælan var rekin með 16 milljóna tapi á síðasta ári miðað við 4,6 milljóna hagnað á fyrra ári. Tekjur félagsins drógust saman um 27% á árinu úr 108 milljónum króna í 79 milljónir króna. Félagið rekur tvær ljósabekkjastofur, eina í Bæjarlind í Kópavogi og aðra í Egilshöll í Grafarvogi.

Vörunotkun nam 4 milljónum, laun og launatengd gjöld 48,5 milljónum og almennur rekstrarkostnaður 37,5 milljónum króna.

Í ársreikningnum kemur fram að rekstrarhæfi félagsins sé mjög gott þó COVID-19 hafi haft töluverð áhrif á reksturinn, en tvívegis þurfti að loka sólbaðsstofunum á árinu, í alls þrjá mánuði. Félagið fékk 2,4 milljóna lokunarstyrk á síðasta ári og 9,5 milljóna lokunarstyrk á þessu ári.

Þá segir í ársreikningnum að félagið hafi fest kaup á tveim nýjum ljósabekkjum í ársbyrjun en sökum COVID-19 hafi ekki verið unnt að flytja þá til landsins. Bekkirnir voru því enn í Danmörku þegar ársreikningurinn var samþykktur í lok apríl. „Um leið og sóttvarnaraðgerðum verður aflétt á Íslandi og Danmörku verða þeir fluttir inn og settir upp á sitt hvorri stofunni,“ segir í ársreikningnum.

Eigið fé nam 32 milljónum í lok árs 2020, skuldir 23 milljónum og eignir 55 milljónum króna, en þar af námu áhöld og tæki 26 milljónum króna.