Credit Sights ver íslensku bankana í nýrri skýrslu um hérlent bankakerfi og lýsir yfir furðu á háu skuldatryggingaálagi Kaupþings, Glitnis og Landsbanka.

„Við erum nú í þeirri óvanalegu aðstöðu að koma íslensku bönkunum til varnar, eftir að hafa verið á meðal hörðustu gagnrýnenda þeirra síðustu tvö ár,“ segir í skýrslunni, sem kom út í fyrradag.

Merrill Lynch segir, í skýrslu sinni frá því í gær, að bankarnir hafi meira en nægt eigið fé. Vandi þeirra felist hins vegar í því að markaðurinn óttist að gert verði áhlaup á þá.

Í síðustu viku hækkaði skuldatryggingaálag Glitnis í yfir 1.000 punkta og álag Kaupþings fylgdi fast á eftir.

„Þetta þýðir að íslensku bankarnir eru með mesta álagið á skuldatryggingamarkaðinum - hærra en bandarísk skuldatryggingafélög, hærra en CIT og hærra en Kazkommertsbank og Bank TuranAlem. Fræðilega bendir þetta til þess að hættan á því að þeir standi ekki í skilum er mikil, þótt fullyrðingar um fylgni milli skuldatryggingaálags og líka á því að viðkomandi standi ekki í skilum séu þýðingarlausar við þessar erfiðu lausafjáraðstæður,“ segir greinandi Credit Sights í skýrslunni. Bendir hann á að verð hlutabréfa í bönkunum hafi hækkað mikið síðustu daga, jafnvel þótt hluthafar hafi mestu að tapa fari bankarnir á hliðina með einum eða öðrum hætti.

Höfundur skýrslunnar segir að grunnrekstur bankanna réttlæti ekki skuldatryggingaálagið. Fjármögnun og lausafjárstaða hafi verið í brennidepli þegar félagið hóf að greina íslensku bankanna í byrjun ársins 2006, en síðan þá hafi þeir aukið lausafé, dreift fjármögnun sinni og lengt endurgreiðsluferil skulda sinna.

Álag á skuldatryggingar þeirra skipti líklega ekki máli til skamms tíma, en það skemmi ímynd bankanna til langs tíma. Það sé verra en hitt.