Uppgangur í Bandaríkjunum og Suður-Asíu mun vegast á við óvissu í efnahagsmálum í Evrópu á næstu misserum að mati Roberts Parker, aðalráðgjafa fjárfestingarsviðs Credit Suisse. Parker hélt erindi á fundi eignastýringar MP banka í vikunni og fór þar yfir hvað er að gerast í hagkerfi heimsins og hvaða stöður Credit Suisse er að taka á hinum ýmsu mörkuðum.

Parker segir að í ljósi þess sem hann telur að muni gerast í hagkerfi heimsins hafi Credit Suisse aðlagað stöður sínar að ákveðnu leyti. „Við höfum verið að kaupa hlutabréf almennt í heiminum, en selt í Bandaríkjunum og S-Asíu, því þar höfum við hagnast vel, en verðið er orðið nokkuð hátt. Við höfum verið að auka við stöður okkar í N-Asíu og í japönskum hlutabréfum, sem og í evrópskum útflutningsfyrirtækjum og þýskum framleiðslufyrirtækjum. Við erum bjartsýn fyrir hönd Austur-Evrópuríkja og teljum mikil tækifæri felast í Mexíkó. Þar er hægt að gera góð kaup og mexíkósk framleiðslufyrirtæki munu njóta góðs af auknum hagvexti í Bandaríkjunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .