Credit Suisse bankinn aðstoðaði bandaríska viðskiptavini við að fela bankareikninga sem þeir áttu í Sviss. Þannig gátu viðskiptavinirnir komist undan því að greiða skatta í Bandaríkjunum.

Í nýrri skýrslu er fullyrt að Credit Suisse hafi opnað yfir 22 þúsund bankareikninga fyrir bandaríska viðskiptavini. Heildarupphæðin á reikningunum hafi verið 12 milljarðar dala þegar mest var.

Í skýrslunni kemur fram að bankamenn á vegum Credit Suisse hafi aðstoðað viðskiptavini sína við að stofna erlend félög og millifæra fé án þess að grunur vaknaði um að nokkuð óeðlilegt væri á seyði. Þessar millifærslur áttu sér stað á árunum 2001-2008.