Credit Suisse mun verða fyrsta stóra fjármálafyrirtækið til að bjóða þjónustu sérsniðna að þörfum samkynhneigðra viðskiptavina. Samkynhneigðir ráðgjafar munu vera til taks í einkabankaþjónustu Credit Suisse.

Telegraph segir frá þessu um helgina.

Hin nýja þjónusta mun fela í sér hefðbundna einkabankasþjónustu, en einnig ráðgjöf sérsniðna að þörfum samkynhneigðra þegar kemur að vígðri sambúð og ættleiðingum.

Forsvarsmenn Credit Suisse hafa sagt að mikilvægt sé að hafa ráðgjafa innanborðs sem hafa innsýn í heim samkynhneigðra. Samkynhneigðar fyrirmyndir á borð við starfsmannastjóra borgarstjórans Boris Johnson – Nicholas Boles, séu mikilvægar ímyndinni og sýni skilning á lífsstíl samkynhneigðra.

Keppinautar Credit Suisse bjóða ekki upp á sambærilega þjónustu. Talsmenn UBS sögðu þó af þessu tilefni að þeir flokkuðu viðskiptavini sína ekki eftir kynhneigð.

Samkynhneigðir einstaklingar eru yfir þrjár milljónir í Bretlandi og gæti reynst Credit Suisse vænlegur viðskiptamannahópur.

Breskir karlmenn sem hneigjast að kynbræðrum sínum eru talsvert yfir meðaltekjum gagnkynhneigðra þar í landi. Jafnframt er talið að einn af hverjum níu sem vinna í fjármála- og tryggingageiranum þar í landi, sé samkynhneigður.