Svissneski bankinn Credit Suisse jók hagnað sinn um 16% á fyrsta ársfjórðungi á milli ára. Afkoman fór fram úr væntingum en í umfjöllun The Wall Street Journal segir að niðurstaðan renni stoðum undir vísbendingar um að áralöng endurskipulagning á rekstri bankans sé að skila árangri.

Hagnaður Credit Suisse á fyrsta ársfjórðungi nam 709,1 milljón dala eða sem nemur tæpum 71 milljarði króna en tekjur félagsins jukust um 1,8% milli ára.

Þá segir einnig í umfjöllun WSJ að um mikilvægt ár sé að ræða fyrir bankann en í fyrra skilaði hann tapi á ársgrundvelli, þriðja árið í röð.

Endurskipulagning bankans hefur í meginatriðum gengið út á það að leggja aukna áherslu á eignastýringu í stað fjárfestingabankastarfsemi.