Svissneski bankinn Credit Suisse fyrirhugar að ráða rúmlega þúsund manns á næstu þremur árum til þess að sinna einkabankaþjónustu og eignastýringu um heim allan.

Nú gegna 3.370 manns þessum störfum hjá bankanum, fjölgunin verður því umtalsverð í starfsmannahópnum. Vonast forsvarsmenn bankans að geta laðað að starfsmenn frá öðrum bönkum.

Fréttaveitan Reuters hefur það eftir lykilmönnum Credit Suisse að þetta svið fari vaxandi. Skammtímatækifæri liggi á lánsfjármörkuðum. Núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum bjóði upp á tækifæri handa þeim sem lengi hafa haldið aftur af sér í leit að verðmætum fjárfestingum.

Credit Suisse bankinn hefur þurft að afskrifa lán á þessu ári sem svara milljörðum bandaríkjadala. Þó hefur lánsfjárkreppan ekki leikið bankann jafn grátt og aðal keppinautinn UBS.