Credit Suisse, sem er annar stærsti bankinn í Sviss, hagnaðist um 1,1 milljarð Bandaríkjadali á fyrsta ársfjórðungi, en það er um fjórðungi meira en á sama tímabili á síðasta ári. BBC News greinir frá þessu.

Seðlabankinn í Sviss afnam fastgengisstefnu svissneska frankans gagnvart evru í upphafi ársins. Styrktist gengi gjaldmiðilsins gagnvart evrunni umtalsvert í kjölfarið og gengi hlutabréfa í landinu lækkaði. Olli þetta jafnframt nokkrum áhyggjum fyrir svissneskar fjármálastofnanir sem veitt höfðu lán til erlendra aðila.

Aðgerðir Seðlabankans virðast hins vegar ekki hafa haft mikil áhrif á stöðu Credit Suisse sem eykur við hagnaðinn milli ára. Árshlutauppgjörið er það síðasta sem bankinn gefur frá sér undir stjórn Brady Dougan forstjóra hans, en Tidjane Thiam mun taka við þeirri stöðu í lok júnímánaðar.