Svissneski bankinn Credit Suisse staðfesti í dag að tap hafi verið á rekstri bankans á þriðja fjórðungi.

Bankinn tapaði 1,7 milljarð svissneskra franka á verðbréfaviðskiptum og forráðamenn hans eru svartsýnir á framhaldið.

Heildartap Credit Suisse, sem sótti sér tíu milljarða franka í síðustu viku til þess að styrkja eiginfjárstöðu sína, á fjórðungnum var 1,3 milljarður franka en bankinn afskráði 2,43 milljarða franka á tímabilinu.

Afskriftirnar voru að mestu tilkomnar vegna verðbréfunar og að bankinn gat ekki selt skuldsett lánasöfn úr bókum sínum fjárfesta.

Markaðsviðskipti Credit Suisse töpuðu miklu fé á tímabilinu eða 3,23 milljörðum franka samanborið við 6 milljarða franka hagnað af þeirri starfsemi á sama tíma í fyrra.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Brady Dougan, forstjóra bankans, að forráðamenn Credit Suisse geri ráð fyrir að markaðsaðstæður verði áfram „ákaflega erfiðar” og eru ummælin túlkuð sem viðvörun til fjárfesta.

Sé horft til gengis hlutabréfa Credit Suisse í ár má sjá að fjárfestar hafi meiri trú á bankanum en öðrum sambærilegum stofnunum í Evrópu. Gengi Credit Suisse hafa fallið um 34% á árinu á meðan Stoxx Europe 600 hefur fallið um 52% það sem af er ári.

Forráðamenn bankans hafa reynt að draga úr stöðum sínum í lánum til skuldsettrar yfirtöku og öðrum illseljanlegum eignum auk þess að reynt hefur verið að draga úr umsvifum fjárfestingabankastarfsemi og dreifa tekjuflæði bankans.

Dow Jones hefur eftir sérfræðingum að það sem veki sérstaklega athygli við stöðu Credit Suisse sé einkabankaþjónustan.

Þrátt fyrir að bankinn hafi ráðið til sín 110 ráðgjafa í einkabankaþjónustu á fjórðungnum dróst hagnaður starseminnar saman um 39% á ársgrundvelli. Þykir þetta sérstaklega áhugavert í ljósi þess að mikill flótti hefur verið úr sambærilegri þjónustu hjá öðrum svissneskum banka, UBS, og telja sumir einsýnt að Credit Suisse sé ekki að hagnast á versnandi samkeppnistöðu keppinautarins.