Creditinfo Group hefur keypt 25% hlut í fyrirtækinu Zvilgnis Is Arciau í Litháen og á nú allt hlutafé félagsins. Creditinfo átti fyrir 75% hlut og hafði kauprétt á því sem eftir stóð. Að sögn Reynis Grétarssonar, framkvæmdastjóra Creditinfo Group, hefur rekstur félagsins gengið vel og því var ákveðið að nýta kaupréttinn. Kaupverðið var um 250 þúsund evrur eða um 24 milljónir króna. Þess má geta að Zvilgnis Is Arciau þýðir: Við nánari skoðun.

Creditinfo Group hefur starfað á alþjóðlegum vettvangi á sviði lánshæfisupplýsinga og áhættustýringar frá árinu 2002, með áherslu á nýmarkaði. Félagið er með starfsemi í meira en tuttugu löndum og tók nýlega þátt í að stofna fjárhagsupplýsingastofu í Kasakstan og Úkraínu. Á síðasta ári var stofnað nýtt félag innan Creditinfo sem veitir viðskiptavinum félagsins beinan aðgang að markaðs-, viðskipta- og lánshæfisupplýsingum í Mið-Austurlöndum. Félagið nefnist Creditinfo Middle-East og er það mikilvægur hluti alþjóðlegrar starfsemi Creditinfo Group.

Þess má geta að Creditinfo Group er í 81. sæti yfir þau evrópsku fyrirtæki sem eru mest vaxandi og atvinnuskapandi, samkvæmt úttekt sem birtist á síðasta ári í tímaritinu Europes 500.