Creditinfo Group hf. skilaði hagnaði sem nemur 411,8 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Hagnaðurinn dróst lítillega saman á milli ára en á árinu 2013 nam hann 425,8 milljónum króna. Rekstrartekjur félagsins jukust um rúmlega 200 milljónir króna milli ára og námu nú 2.785 milljónum króna. Aftur á móti jukust rekstrargjöld félagsins einnig um svipaða fjárhæð og námu nú 2.538 milljónum króna.

Eignir félagsins í lok ársins námu 3.426 milljónum króna samanborið við 3.018 milljónir króna ári fyrr. Skuldir voru 1.794 milljónir króna og var eigið fé fyrirtækisins því 1.642 milljónir króna í árslok. Jókst það um 366 milljónir króna milli ára.

Reynir Grétarsson er stærsti eigandi Creditinfo Group en félag hans, InfoCapital ehf., á 81,2% hlut í fyrirtækinu auk þess sem hann á beinan eignarhlut sem telur 2,14%.