Creditinfo hagnaðist um 3,4 milljónir evra á síðasta ári samanborið við 1,5 milljóna króna hagnað árið á undan. Sala á vöru og þjónustu á síðasta ári nam 46,7 milljónum evra samanborið við 34 milljónir evra árið 2018. Skuldir félagsins á síðasta ári námu 32,3 milljónum evra samanborið við 31,6 milljónir evra 2018.

Eigið fé í lok árs 2019 nam 21,8 milljónum evra samanborið við 14,1 milljón evra í árslok 2018. Eignir félagsins í lok árs 2019 námu 54 milljónum evra en þær voru 45,6 milljónir árið á undan. Handbært fé frá rekstri nam 6 milljónum evra á síðasta ári samanborið við 2,9 milljónir evra 2018. Laun og launatengd gjöld námu um 15,8 milljónum evra á síðasta ári. Stöðugildi hjá félaginu á árinu voru 323.

Aðalstarfsemi Creditinfo hf. er miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Félagið er með aðalstarfstöð í Reykjavíkurborg en einnig er starfsemi í um tuttugu öðrum löndum. Í upphafi og lok ársins 2019 voru hluthafar í félaginu 45. Stærsti hluthafi í Creditinfo er Info-Capital og nemur hluturinn 67,7%, næststærstu hluthafarnir eru Actis Merlot og Paprika Investment. Framkvæmdastjóri Creditinfo er Stefano Mauro Stoppani. Brynja Baldursdóttir er framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.