Creditinfo hefur nú fengið starfsleyfi og opnað skrifstofu í Tansaníu, fyrst slíkra fyrirtækja þar í landi. Starfsemin er í samræmi við stefnu ríkisstjórnar Tansaníu um að byggja upp og styrkja innviði fjármálakerfisins.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þjónusta Creditinfo í Tansaníu sé sambærileg við starfsemi fyrirtækisins í öðrum löndum víðs vegar um heiminn þar sem bæði almenningur og fyrirtæki geta nálgast fjárhagslegar upplýsingar um einstaklinga og lögaðila og margvíslega úrvinnslu þeirra. Þá hefur fyrirtækið sett upp sérstakt kerfi fyrir Seðlabanka Tansaníu sem notað er til að safna öllum upplýsingum um útlán í tansaníska bankakerfinu.

Þar er haft eftir Hákoni Stefánssyni, framkvæmdastjóri Creditinfo, að starfsmenn fyrirtækisins í Tansaníu muni meðal annars veita upplýsingar sem miði að því að auka ábyrga lánafyrirgreiðslu og að þegar sé búið að gera samninga við nokkra af helstu bönkum landsins.