Creditinfo Group hf. og IMG hf. hafa skrifað undir samning um kaup þess fyrrnefnda á rekstri Fjölmiðlavaktarinnar ehf. Starfsemi Fjölmiðlavaktarinnar flyst í höfuðstöðvar Creditinfo að Brautarholti 10-14. Allt starfsfólk Fjölmiðlavaktarinnar flytur með starfseminni.

?Við teljum að starfsemi Fjölmiðlavaktarinnar og dótturfélags okkar á Íslandi, Lánstrausts hf., fari vel saman" segir Reynir Grétarsson, framkvæmdastjóri Creditinfo um kaupin í frétt inni á heimasíðu Lánstrausts. Þar er ennfremur haft eftir honum. ?Bæði félögin miðla mikilvægum upplýsingum til viðskiptalífsins. Lánstraust miðlar vanskila- og fjárhagsupplýsingum til viðskiptavina sinna, og Fjölmiðlavaktin fréttum. Kaupin á Fjölmiðlavaktinni gera okkur kleift að auka þjónustu beggja fyrirtækja og samlegðaráhrifin eru talsverð. Við erum að treysta stöðu okkar á upplýsingamarkaðinum." Viðskiptavinir fyrirtækjanna munu finna fyrir jákvæðum breytingum og verðmætari þjónustu eftir því sem á líður að sögn Reynis.

Skúli Gunnsteinsson, forstjóri IMG, segir félagið vera að innleysa góðan söluhagnað af Fjölmiðlavaktinni. ?Við keyptum Fjölmiðlavaktina af Miðlun árið 2000 og rekstrartekjur hennar hafa vaxið um 50% á þessum tíma. Við skilum af okkur góðu, vel mönnuðu fyrirtæki, sem við trúum að muni eiga bjarta framtíð hjá nýjum eigendum."

Creditinfo er íslenskt fyrirtæki með starfsemi í 7 löndum og um 120 starfsmenn. Creditinfo sérhæfir sig í að safna og miðla fjárhagsupplýsingum um einstaklinga og fyrirtæki, sem hafa áhrif á ákvörðunartöku fyrirtækja um lánshæfi viðkomandi aðila. Helstu viðskiptavinir eru bankar, fjármögnunarfyrirtæki og önnur þau fyrirtæki er lána peninga, vörur eða þjónustu.

IMG er stærsta rannsóknar-, ráðgjafar- og ráðningarfyrirtæki landsins. Meðal fyrirtækja IMG eru IMG Gallup, IMG Deloitte og Mannafl. Eftir sölu Fjölmiðlavaktarinnar eru starfsmenn IMG um 100 talsins.