Fyrirtækið Creditinfo Group hf., dótturfélag Lánstrausts, skrifaði undir kaupsamning í gær um kaup á meirihluta í rúmenska fyrirtækinu Delos Creditinfo Romania. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki stjórnar. Fyrir tveimur árum keypti Creditinfo Group hf. 23% hlut í fyrirtækinu en er nú komið með 65%. Fyrirtækið er metið á 1,7 milljónir evra eða um 125 milljónir íslenskra króna. Hjá félaginu starfa um 200 manns.

Að sögn Reynis Grétarssonar, framkvæmdastjóra Lánsstrausts, hefur rekstur Delos Creditinfo Romania gengið mjög vel síðan keyptur var 23% hlutur fyrir tveimur árum. "Við vildum fara varlega hingað inn og treystum okkur ekki til að kaupa stærri hlut þá. Nú erum við búnir að vera hér tvö ár og það er komin mjög góð reynsla á þetta og óhætt að segja að reksturinn hefur gengið mjög vel," sagði Reynir. Hann benti á að þar sem Rúmenía væri á þröskuldi þess að ganga inn í Evrópusambandið væri ljóst að mikið ætti eftir að breytast í landinu. Um leið hefur það sýnt sig að mikil vöntun er á þjónustu eins og þeirri sem Lánstraust veitir á sviði fjármálaupplýsinga.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.