Creditinfo Group hefur keypt ráðandi hlut í tékkneska tæknilausna fyrirtækinu SinTe, segir í tilkynningu frá félaginu. Creditinfo Group er dótturfélag Lánstrausts hf.

?Í samræmi við stefnu Creditinfo Group um frekari fjárfestingar í Mið- og Austur-Evrópu hefur fyrirtækið nú keypt ráðandi hlut í SinTe, sem er helsta fyrirtæki Tékklands í tæknilausnum fyrir banka og lánastofnanir," segir í tilkynningunni.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp né stærð eignarhlutarins. SinTe var stofnað árið 2000 og hefur alltaf verið rekið með hagnaði, samkvæmt tilkynningu Creditinfo. Félagið hefur starfað í Tékklandi frá árinu 2004, en það stofanði útibú í Tékklandi og Slóvakíu í fyrra.

Jan Denemark, forstjóri SinTe kveðst ánægður með samstarfið við Creditinfo Group sem hann segir muni efla viðskiptatækifæri SinTe á alþjóðavísu.

?Samstarf SinTe með starfsmönnum Creditinfo Group mun ekki síst opna aðgang og tækifæri á þeim erlendu mörkuðum sem Creditinfo Group starfar nú þegar á," segir Denemark.