Klappir hf. og Creditinfo ehf. hafa gert með sér samstarfssamning um samtengingu gagnagrunna fyrirtækjanna á sviði eignaumsýslu og umhverfismála. Markmiðið með samstarfinu er að auðvelda eignarumsýslu fyrirtækja og stofnana landsins. Með samtengingu gagnagrunna fyrirtækjanna gefst tækifæri til að auka gegnsæi og straumlínulaga tengsl umhverfisþátta og eigna í rekstri fyrirtækja.

Nú þegar er búið að smíða sérstaka gagnatengingu á milli gagnagrunna Klappa og Creditinfo sem veitir viðskiptavinum Creditinfo möguleika á því að nýta áskrift sína til snjallrar umhverfisstjórnar í hugbúnaði Klappa. Að sama skapi hafa viðskiptavinir Klappa tækifæri á því að tengjast Creditinfo á rafrænan hátt og hlaða niður heildstæðum eignalista til frekari stýringar og tenginga við umhverfisþætti. Á þennan hátt geta fyrirtæki unnið að þessum þáttum á auðveldari hátt í þágu betri viðskipta- og umhverfisupplýsinga fyrir hluthafa, fjárfesta og samfélagið í heild.

„Við erum mjög ánægð með samstarfið við Klappir. Á þennan hátt verður viðskiptavinum okkar gert enn auðveldara að taka góðar ákvarðanir er varða rekstur fyrirtækisins og samfélagið í heild byggðar á traustum gögnum,“ segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.

"Við erum mjög ánægð með samstarfið við Creditinfo. Tenging á milli félaganna tveggja gefur viðskiptavinum okkar góða yfirsýn yfir skráðar eignir. Sú yfirsýn auðveldar og straumlínulagar allt ferli í kringum greiningu á umhverfisáhrifum eignanna," segir Þorsteinn Svanur Jónsson viðskiptastjóri hjá Klöppum.