Creditinfo hefur verið valið úr hópi sex alþjóðlegra fyrirtækja til að fá úthlutað starfsleyfi í Gvæjana í Suður-Ameríku. Það voru IFC, sem er hluti af Alþjóðabankanum (International Finance Corporation, World Bank Group) og Seðlabankinn í Gvæjana sem stóðu að valinu. Creditinfo mun hefja starfsemi í Gvæjana fyrir lok ársins.

Samvinnulýðveldið Gvæjana land á norðurströnd Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela í vestri, Súrínam í austri, Brasilíu í suðri, og strandlengju við Atlantshafið í norðri. Þar búa um 700 þúsund manns.

Ceditinfo hóf útrás árið 2002 og er nú með starfsemi í ellefu löndum. Á teikniborðinu er að þau verði fleiri.

„Við sóttumst eindregið eftir því að fá þetta leyfi og teljum okkur geta haft jákvæð áhrif á efnahagslíf Gvæjana,“ segir Reynir Grétarsson, stofnandi og stjórnarformaður Creditinfo í tilkynningu. „Við höfum einnig mikla reynslu af stofnun og rekstri fjárhagsupplýsingafyrirtækja á minna þróuðum mörkuðum sem mun nýtast okkur afar vel á þessum slóðum.  Við höfum þróað nýja lausn sem er frábrugðin öllum öðrum að því leyti að hún er ódýr og innleiðing hennar er fljótleg sem auðveldar okkur að takast á við ný verkefni þar sem þörf er á heildarlausn fyrir fjármálamarkaðinn,“ segir hann.