Seðlabanki Suður-Súdan hefur samið við Creditinfo Group hf. um að fyrirtækið leggi til fjárhagsupplýsingakerfi ásamt sérlausnum til styðja fjármálastofnanir landsins við lánveitingar. Reynir Grétarsson, framkvæmdastjóri Creditinfo Group hf., undirritaði ásamt John Dor Majok, aðstoðarseðlabankastjóra Suður-Súdan, samning þess efnis 28. ágúst síðast liðinn. Samingurinn kom til að undangengnu alþjóðlegu útboði Seðlabanka Suður-Súdan í samvinnu við Alþjóðabankann.

„Suður-Súdan er yngsta ríki heimsins, stofnað fyrir tæpum þremur árum. Þrátt fyrir erfiðleika og átök eru íbúar vongóðir og bjartsýnir á uppbyggingu innviða landsins, þar á meðal í fjármálageiranum. Lánshæfisupplýsingaveita er nauðsynleg til að gera lánastofnunum, bönkum, fjármögnunarfyrirtækjum og öðrum lánveitendum kleift að stunda ábyrga lánastarfsemi. Þetta bætir aðgang að fjármagni fyrir fólk og fyrirtæki, eflir hagvöxt og skapar betri horfur og lífsgæði,” segir Reynir.

Creditinfo mun leggja til fjárhagsupplýsingakerfi ásamt sérlausnum, en markmið fyrirtækisins er að veita áframhaldandi stuðning og bæta síðar við sérlausnum þegar fjármálageirinn í Suður-Súdan eflist og þróast.

Suður-Súdan er nú í 180. sæti af 189 á lista Doing Business varðandi lánaaðgengi. Fram kemur í fréttatilkynningu að með tilkomu upplýsingalausna Creditinfo eykst umfang, öryggi og aðgengi lánshæfisupplýsinga sem mun bæta lánaaðgengi fólks.