Íslenska fyrirtækið Carbon Recycling International hefur verið valið eitt af fimm áhugaverðustu fyrirtækjum í umhverfistækni á Norðurlöndum. CRI var valið úr hópi 50 fyrirtækja sem komust í lokaumferð á Cleantech ráðstefnunni í Kaupmannahöfn 29-30. apríl síðastliðinn. Alls sóttu 150 fyrirtæki um segir í tilkynningu.

Mikilvægi umhverfistækni heldur áfram að vaxa í Evrópu og í heiminum öllum. Í Danmörku er útflutningur frá fyrirtækjum í umhverfistækni til dæmis 9% af öllum útflutningi samkvæmt upplýsingum Michael Lauridsen frá Bankinvest, sem sat í hópi fimm sérfræðinga í dómnefnd.

Carbon Recycling International var stofnað árið 2006 og er fyrsta fyrirtækið sem sérhæfir sig í framleiðslu metanols úr koltvísýringi.

KC Tran, forstjóri CRI segir viðurkenninguna mikinn heiður, hún undirstriki trú dómnefndarinnar á vaxandi markaði fyrir endurnýjanlega orku og áforma CRI um sölu á endurnýjanlegu metanóli.

„Viðurkenningin er ekki síst mikil vegna þess að eigendur fyrirtækjanna fjögurra í lokavalinu voru í dómnefndinni,“ segir Andri Ottesen, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs CRI.  Að komast í þennan hóp sé einnig góð kynning á fyrirtækinu, ekki síst meðal fjármögnunarfyrirtækja í Evrópu.