Töluverður titringur hefur verið á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í haust. Norski vefmiðillinn E24 greinir frá því að í Noregi haldi fjárfestar að sér höndum og það hafi áhrif á fyrirtæki, sem hyggist skrá sig á markað þar í landi. Nefnt er að flutningafyrirtækið Gram Car Carriers og orkufyrirtækið Corvus Energy hafi hætt við skráningu, að minnsta kosti í bili.

Þá er greint frá því að Carbon Recycling International ( CRI ) sé að endurskoða skráningu á Euronext Growth markaðinn en félagið hugðist fara í 20 til 30 milljóna dollara, eða 2,6 til 3,9 milljarða króna, hlutafjáraukningu í tengslum við hana. Ómar Sigurbjörnsson, sölu- og markaðsstjóri, staðfestir þetta í samtali við E24 . Segir hann að vegna markaðsaðstæðna hafi skráningarferlið tekið lengri tíma en áætlað hafi verið. Félagið eigi nú í viðræðum við mögulega hornsteinsfjárfesta.