Íslenska tæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) stóð uppi sem sigurvegari í alþjóðlegri nýsköpunarsemkeppni, Sparkup challenge, sem finnski tæknirisinn Wärtsilä stóð fyrir. Keppnin, sem fram fór í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Helsinki í gær, miðaði að því að finna þá tæknilausn sem svarar best áskorunum sveiflukenndrar framleiðslu endurnýjanlegrar orku. CRI keppti til úrslita ásamt þremur öðrum fyrirtækjum sem voru valin úr hópi 70 fyrirtækja víða að úr heiminum sem skráðu sig til þátttöku.

Sigur í keppninni færir CRI 50.000 evru peningaverðlaun og tækifæri til frekara samstarfs við Wärtsilä við þróun sameiginlegra verkefna þar sem tæknilausn fyrirtækisins verður hagnýtt. Framleiðsla endurnýjanlegrar orku, eins og sólar- og vindorku, er eðli málsins samkvæmt háð sveiflukenndum aðstæðum og eru dreifikerfi fyrir raforku illa í stakk búin til að koma til móts við þær. Þegar sólskin er mikið eða vindur blæs hressilega er algengt að orka fari til spillis, ýmist vegna vangetu dreifikerfisins til að taka við aukinni orku eða að skyndilegt aukið framboð er meira en eftirspurnin. Þetta getur haft hamlandi áhrif á frekari uppbyggingu slíkra orkugjafa. Framleiðendur endurnýjanlegrar orku hafa því um árabil kallað eftir lausnum sem gera þeim kleift að stýra framboði orkunnar, jafna álag á dreifikerfi og auka þannig skilvirkni í nýtingu auðlindarinnar.

Framlag CRI til keppninnar í ár lýsti notkun tæknilausnar til þess að geyma umframorku á álagstímum í formi metanóls. Raforku er umbreytt í vetni með rafgreiningu sem síðan er hvarfað við koltvísýring sem fanga má frá ýmsum útblæstri, en afurð þessa er metanól. Metanól, sem fljótandi orkuberi, er fært um að geyma orku á öruggan hátt til lengri eða skemmri tíma og auðvelt er að flytja hana þangað sem hennar er þörf með innviðum sem þegar eru til staðar. Orkuþéttni metanóls gerir framleiðendum kleift að geyma mikið magn orku með þessum hætti og þar sem koltvísýringur er nýttur í ferlinu dregur það því verulega úr kolefnisfótspori í samanburði við aðrar lausnir.

„Við erum sannfærð að vegir okkar og Wärtsilä liggi saman og að farsælt samstarf sé nú í startholunum.“ Segir Margrét Ormslev Ásgeirdóttir, fjármálastjóri CRI. „Til að ná markmiðum Wärtsilä um 100% endurnýjanlega framtíð er rík þörf fyrir samstarf og samvinnu tæknifyrirtækja“