CrossFit Reykjavík (CFR) mun í sumar flytja úr Skeifunni yfir í Faxafen 12, þar sem 66°Norður og fleiri fyrirtæki eru nú til húsa. Líkamsræktarstöðin mun hafa um 1.700 fermetra til umráða í nýju húsnæði. Hrönn Svansdóttir, framkvæmdastjóri og einn eigenda CFR, segir í samtali við Viðskiptablaðið að stefnt sé að því að klára flutninga fyrir 1. ágúst nk.

„Nýja húsnæðið mun gera okkur kleift að vera með séraðstöðu fyrir ólympískar lyftingar og aðstöðu fyrir lyftingar almennt, auka við barna- og unglingastarf auk þess sem öll aðstaða, t.d. búningaaðstaða, verður mun betri en nú er,“ segir Hrönn.

Aðspurð segir hún að aðsóknin í CrossFit hafi verið að aukast mikið síðustu ár. Uppgangur CFR hefur verið nokkuð hraður en stöðin opnaði upphaflega í 27 fermetra bílskúr í Mosfellsbæ sumarið 2010 en flutti þó fljótlega í Skeifuna.