Crowberry Capital og fleiri hafa fjárfest í nýsköpunarfyrirtækinu Kara connect fyrir 180 milljónir króna. Í fréttatilkynningu af því tilefni segir að Kara connect býður öruggan og notendavænan vefhugbúnað sem gerir sérfræðingum í heilbrigðis- og menntageiranum kleift að veita fleiri viðskiptavinum þjónustu og straumlínulaga rekstur sinn.

Viðskiptablaðið fjallaði um Köru connect í fyrra , þar sem Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins sagði meðal annars að „það er mikið talað um hvaða störf róbótarnir taka við en ekkert um hvað vex. Allt sem tengist samskiptum og samkennd og sköpun, það á eftir að vaxa.“

Fjárfestingasjóðurinn Crowberry Capital leiddi fjármögnunina ásamt einkafjárfestum. Fjármögnunin mun koma til með að styðja við vöxt Köru connect í Skandinavíu. Á Íslandi hafa nú þegar yfir þúsund einstaklingar lokið rúmlega 9000 meðferðartímum hjá tugum sérfræðinga í Köru.

Helga Valfells, einn stofnenda sjóðsins, var tekin tali í Viðskiptablaðinu í nóvember , þar sem hún lagði meðal annars áherslu á nauðsyn þess að nýsköpunarfyrirtæki leggi áherslu á markaðsstaf.

„Sérfræðingar sem sinna meðferð eða stuðningi við skjólstæðinga takast á við áskoranir vegna tæknibreytinga og mikils álags. Kara býður þeim upp á örugga rafræna skrifstofu ásamt fjarþjónustulausn af fullkomnustu gerð. Verkefnið framundan er frekari þróun Köru ásamt því að aukinn kraftur verður settur í sölu og markaðsetningu í Skandinavíu.” segir Þorbjörg Helga í tilkynningunni.