Íslenski sprota- og vaxtasjóðurinn Crowberry Capital, hefur fjármagnað nýjan vísisjóð, Crowberry II, sem er um 11,5 milljarða króna sjóður. Hann verður því stærsti vísisjóður sem settur hefur verið saman á Íslandi, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Sjóðurinn hefur 10 ára líftíma og mun taka á móti frekari áskriftarloforðum fagfjárfesta á fyrsta starfsári. Crowberry II fjárfestir í norrænum tækni sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum fjármögnunar og mun vera með starfsstöðvar í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF) leiddi fjármögnun sjóðsins en aðrir fjárfestar eru íslenskir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar, þar á meðal Davíð Helgason, stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Unity. Evrópski fjárfestingasjóðurinn, sem leggur til fjórðung af fjármagninu, er í eigu nokkurra evrópskra banka og er stærsti fagfjárfestir vísisjóða í Evrópu.

„Aðkoma EIF er staðfesting á því að hér á landi eru mikil tækifæri við uppbyggingu tæknifyrirtækja um leið og að staðfesta að þau vinnubrögð sem hafa verið þróuð hér við fjárfestingar séu eins og best gerist í Evrópu. Þessi beina erlenda fjárfesting mun hafa mikil áhrif á uppbyggingu tæknifyrirtækja og sköpun þekkingarstarfa á Íslandi til næstu 10 ára,“ segir í tilkynningunni.

Stofnendur og meðeigendur Crowberry Capital eru þær Helga Valfells, Hekla Arnardóttir og Jenný Ruth Hrafnsdóttir sem hafa fjárfest í 15 tæknifyrirtækjum, þar á meðal Lucinity, Elsa Science, Garden.io og Mainframe í gegnum fyrri sjóð Crowberry Capital, Crowberry I,  sem var 4 milljarðar króna að stærð en sá sjóður var stofnaður árið 2017.

Helga Valfells:

„Við erum þakklát fyrir það traust sem hluthafar Crowberry sýna okkur. Það er ánægjulegt að vinna í nýsköpun með íslenskum lífeyrissjóðum og einkafjárfestum sem hafa stutt okkur dyggilega síðan 2017. Nú erum við að bæta erlendum fagfjárfestum í hópinn. Það er mikill ávinningur af því að fá EIF sem virkan þátttakenda í íslenska vísisumhverfið. Í fyrsta lagi er það frábært fyrir íslenskt efnahagslíf að fá beina erlenda fjárfestingu. En auk þess er það viðurkenning fyrir íslenskt nýsköpunarumhverfi, Crowberry og hluthafa þess að hafa staðist þær ströngu kröfur sem EIF gerir til sinna fjárfestinga. EIF veitir Crowberry aðgang að sterku tengslaneti fjárfesta og fyrirtækja og aðgang að þeirra reynslu og þekkingu. Við hlökkum til að starfa með nýju hluthöfunum og munum vinna dyggilega að því skila þeim góðri ávöxtun.”

Jenný Ruth Hrafnsdóttir:

„Þegar Unity var stofnað árið 2004 af Davíði Helgasyni var vísifjárfesting vart í boði fyrir frumkvöðla tæknifyrirtækja á Norðurlöndum. Unity fann fjárfesta í Bandaríkjunum og í dag er markaðsvirði fyrirtækisins rúmlega ellefu sinnum samanlagt markaðsvirði þeirra tveggja íslensku banka sem eru á markaði. Með að bjóða upp á betri fjármögnun fyrir frumkvöðla á Norðurlöndunum, þá hættum við að vera áhorfendur og höfum tækifæri til að vera þátttakendur í svona vegferðum.”

Hekla Arnardóttir:

„Alþjóðleg tæknifyrirtæki verða ekki til í einangrun. Til að árangur náist þurfa margir að koma að málum, hæfileikaríkir frumkvöðlar, vísisjóðir með reynslu og gott tengslanet og gott stuðningsumhverfi. Frá upphafi höfum við hjá Crowberry Capital lagt mikla áherslu á að tengjast fjárfestum um allan heim með sérstakri áherslu á Norðurlönd. Um leið og tengslanetið styrkist og stækkar aukast líkurnar á því að fyrirtækin nái framhaldsfjárfestingu og geti haldið áfram að vaxa og dafna.”

Fjárfestingaráð sjóðsins skipar Egill Másson, framkvæmdastjóri Akthelia Pharmaceuticals, Ásdís Magnúsdóttir, lögfræðingur hjá Arnason Faktor og Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrum starfsmaður Google og Apple.