Brasilíska fyrirtækið Companhia Siderugica Nacional (CSN), hefur lagt fram tilboð í stálframleiðandann Corus Group upp á 515 pens á hlut, en það er hærra en útistandandi tilboð indverska stálframleiðandans Tata Steel, segir í frétt Dow Jones.

Á sunnudag hækkaði Tata tilboð sitt í Corus Group, sem er hollenskt-enskt fyrirtæki, úr 475 pensum á hlut í 500 pens, sem metur fyrirtækið á 637 milljarða króna. Tilboð CSN er því 3% hærra en Tata og metur fyrirtækið á 665 milljarða króna.

Stjórn Corus hafði mælt með hækkuðu tilboði Tata á sunnudag, en í yfirlýsingu CSN segir að stjórn Corus hafi nú mælt með hækkuðu tilboði CSN, þar sem það sé bæði hærra en tilboð Tata og veiti fyrirtækinu aðgengi að hráefnum, minnki framleiðslukostnað og auki vaxtartækifæri.