Fjarskipafyrirækið CVC Iceland Holding ehf. er meðal þeirra félaga sem skoða möguleika á því að bjóða í fjarskiptafyrirtækið National Grid Wireless (NGW), en ætlunin er að selja félagið út úr breska risafyrirtækinu National Grid.

Bjarni K. Þorvarðarson, framkvæmdastjóri CVC Iceland Holding ehf., staðfesti það við Viðskiptablaðið. Talið er að slagurinn um NGW verði mjög harður, en félagið er metið á tvo milljarða punda (266 milljarða króna). Það er Morgan Stanley bankinn sem aðstoðar National Grid við söluna.

Auk CVC hafa Blackstone, Apax, Warburg Pincus og Cinven verið nefnd sem áhugasamir bjóðendur. Ljóst var að mikill slagur yrði um National Grid Wireless þegar National Grid greindi frá því að félagið hyggðist taka þann þátt út úr rekstri sínum síðastliðið haust, en þá var rætt um að skrá félagið sérstaklega í LSE. Með National Grid Wireless fylgja áhugaverð viðskiptasambönd sem geta staðið undir öflugu sjóðsstreymi. Meðal viðskiptavina eru 14.500 staðir í Bretlandi auk fyrirtækja eins og BBC, Vodafone og T-Mobile.

CVC Iceland Holding ehf. hefur athugað hagkvæmni þess að leggja nýjan sæstreng, eða jafnvel tengja núverandi Hibernia streng sem félagið á til landsins. Þetta gæti verið lausn á þeim vandkvæðum sem hafa verið á því að skapa öruggt varasamband fjarskipta við umheiminn.