Kauphöll Íslands hefur samþykkt Cyntellect Inc. til skráningar á iSEC markaðinn að undangengnu vel heppnuðu útboði til fagfjárfesta, segir í tilkynningu. Þar segir einnig að Cyntellect Inc. verður væntanlega fyrsta félagið sem er skráð á iSEC markað Kauphallar Íslands ásamt því að vera fyrsta bandaríska félagið skráð er á Íslandi.

Viðskiptablaðið sagði frá því þann 28. apríl að unnið væri að skráningu fyrirtækisins á iSEC.

Cyntellect Inc. er bandarískt fyrirtæki með aðsetur í San Diego, Kaliforníu og framleiðir tæki fyrir lyfja- og líftækniiðnaðinn. Fyrirtækið var stofnað 1997 og er með fimm skráð einkaleyfi tengd tækni sem meðhöndlar frumur með leysigeisla.

Fyrir skráningu er útboð til fagfjárfesta. Það stendur til að skrá um 25% af heildarhlutafé fyrirtækisins fyrir um 10-12 milljónir Bandaríkjadali, eða um 727-872 milljónir íslenskra króna. Heildarverðmæti fyrirtækisins er því rúmlega 3,5 milljarðar króna, miðað við efri mörk skráningargengis.

Stjórnarformaður og stofnandi Cyntellet Inc. er Bernhard Pálsson sem nýverið var kjörinn í National Academy of Engineering fyrir störf sín í líftækniiðnaði.

Samkvæmt skráningarlýsingu er hann stærsti hlutafinn með 25% eignarhlut, því næst er Torrey Pacific Corporation með 21%, Sigma Aldrich-lyfjafyrirtækið á 17,3% og Iceland Genomics Ventures á 8,3% eignarhlut, samanlagt ráða þeir yfir 71,6% hlut. Aðrir hluthafar eiga minna en fimm prósent.

Skráningardagur er áætlaður 23. júní næstkomandi.