Cyntellect hefur dregið til baka umsókn sína til skráningar á iSEC markaðinn en félaginu tókst ekki að safna nægu fjármagni í hlutfjárútboði til fagfjárfesta, sagði Skúli Sveinsson, framkvæmdastjóri NordVest, í samtali við Viðskiptablaðið.

NordVest hafði umsjón með útboðinu, en áætlað var að safn tíu milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar 768 milljónum króna.

Skúli segir ástæðuna vera erfiðar markaðsaðstæður. Hann sagðist ekki geta tjáð sig um hve mikið vantaði upp á að fyrirtækið næði að safna nægilegum fjármunum og sagðist ekki geta talað fyrir hönd Cyntellect um hver næstu skref fyrirtækisins verða.

Þann 24. maí samþykkti Kauphöllin skráningu Cyntellect, sem er tækjaframleiðandi fyrir lyfja- og líftækniiðnaðinn. Fyrirtækið var stofnað árið 1997 af Dr. Bernhard Pálssyni og er starfrækt í San Diego í Kaliforníufylki.