Daði Friðriksson hefur verið ráðinn forstöðumaður mannauðslausnasviðs Advania. Á sviðinu starfa um fimmtíu manns sem fást við þróun, ráðgjöf og sölu og þjónustu á sviði mannauðslausna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Daði hefur starfað við upplýsingatækni í rúm 15 ár. Hann var framkvæmdastjóri hjá Tölvumiðlun og einn eigenda fyrirtækisins, en starfsemi þess rann saman við Advania 1. janúar 2016. Eftir sameiningu hefur hann unnið að þróunarverkefnum á mannauðslausnasviði Advania.

„Ég er afar ánægður með að fá að leiða þennan öfluga hóp sem starfar á mannauðslausnasviði Advania. Samruni Advania og Tölvumiðlunar skapaði fjölmörg tækifæri til samþættingar og við höfum unnið hart að þróun lausna okkar í takt við þarfir markaðarins. Það eru spennandi tímar framundan og ég hlakka til að leiða áframhaldandi þróun mannauðslausna Advania og skapa viðskiptavinum okkar enn frekara forskot,” segir Daði við tilefnið.

Daði er 49 ára og er giftur Soffíu D. Halldórsdóttur tannsmið og eiga þau tvö börn.