Einar Örn Ólafsson, hefur afhent Dæluna ehf. inn í nýtt fjárfestingafélag, Barone I ehf. Einar keypti Dæluna fyrr á þessu ári af Festi, í gegnum félagið Eini ehf. Í samrunaskrá sem send var inn til Samkeppniseftirlitsins segir að viðskiptin eigi sér stað vegna uppgjörs á kröfum.

Barone I er í eigu Einars, auk Höllu Sigrúnar Hjartardóttur, fyrrverandi stjórnarformanns FME, Kára Guðjónssonar í gegnum Fiskisund ehf. sem og Helgafells ehf. sem aftur er í eigu Bjargar Fenger, Ara Fenger og Kristínar Vermundsdóttur.

Barone I á keypti meirihluta í Löðri ehf. í byrjun þessa árs og Gámaþjónustuna með framtakssjóðnum SÍA III árið 2017.

Dælan rekur fimm bensínstöðvar. Salan á Dælunni til Einars var hluti af skilyrðum Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa N1 á Festi, sem nú heitir Hlekkur.

Helgafell og Einir eru einnig hluthafar í Stoðum og tóku þátt í hlutafjáraukningu í félaginu fyrr í mánuðinum með því að afhenda hluti í TM til Stoða, sem nú er stærsti hluthafi TM.