Jón Páll Leifsson framkvæmdastjóri Dælunnar segir verðstríð Atlantsolíu og Orkunnar sem hófst í morgun með verðlækkun Atlantsolíu á Sprengisandi hafa ýtt félaginu í að taka þátt í slagnum. Jón Ólafur Halldórsson forstóri Olís, sem rekur ÓB, tekur í sama streng og segir fyrirtækið vera að svara samkeppni með lækkun á þremur stöðvum félagsins.

Dælan hefur nú lækkað verðið á öllum sínum fimm bensínstöðvum niður í 211.2 kr. fyrir lítrann af bensíni og 201.8 kr. fyrir lítrann af diesel olíu.

Jón Ólafur Halldórsson
Jón Ólafur Halldórsson
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )
ÓB sem einnig hefur ákveðið að lækka verðið, lækkaði það um 30 krónur á lítra og fór verðið á stöðvunum þremur sem lækkunin nær til, nú síðdegis niður 211,4 kr/ltr á bensíni og verð á disil í 202 kr/ltr.

„Við erum með þessu að svara samkeppninni. Það geta allir keypt eldsneyti á þessu verði á þessum stöðvum en allir lykil-og korthafar Olís og ÓB njóta eftir sem áður afslátta af eldsneyti og öðrum vörum  á Olís og ÓB stöðvum um land allt,” segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands, sem rekur ÓB.

Gildir lækkunin á þremur stöðvum ÓB:

  • Við Bæjarlind í Kópavogi
  • Við Arnasmára í Kópavogi
  • Við Fjarðarkaup í Hafnarfirði.

Dælan er hins vegar hvorki með afsláttarlykla né aðgangskort að sínum stöðvum og því fá allir viðskiptavinir Dælunnar þetta nýja lága verð hvort sem greitt er með debetkortum, kreditkortum eða peningum.

Jón Páll Leifsson
Jón Páll Leifsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
„Vörumerkið Dælan hefur frá upphafi verið með það markmiði að bjóða mjög samkeppnishæft verð, en svo kom þessi hasar og þá létum við slag standa og ákváðum að gera þetta nokkuð myndarlega,“ segir Jón Páll en áður hafði verið ákveðið að fjórar stöðvar Orkunnar og Atlantsolíu bjóði hið nýja afsláttarverð.

„Við gerum reyndar betur, því við erum að lækka verðið á öllum okkar stöðvum. Þær voru áður þrjár, en í mars tók nýtt félag utan um rekstur Dælunnar. Þá tók nýja félagið við fimm stöðvum frá N1, það er Dælustöðvunum þremur auk tveggja annarra sem við breyttum í vörumerki Dælunnar. Nýja féalgið var stofnað eftir að Samkeppniseftirlitið skyldaði N1 að selja stöðvarnar fimm.“

Stöðvarnar fimm eru allt sjálfsafgreiðslustöðvar og eru þær á eftirtöldum stöðum:

  • Fellsmúla
  • Holtagörðum
  • Stekkjarbakka í Mjódd
  • Hæðasmára
  • Salavegi

Jón Páll segir að lækkunin sé ekki tilkomin vegna breytinga á heimsmarkaðsverði: „Það er alveg ljóst að svona mikil lækkun dregur úr framlegðinni, en í þessari ákvörðun erum við aðallega að horfa á samkeppnina á markaðnum hérna heima. Þessi krónutala sem við lendum á er ekki svo háð heimskarkaðsverði á eldsneyti, þó það hafi lækkað undanfarið, heldur tökum við meira mið af samkeppnisverðinu hérna heima og erum að staðsetja okkur gagnvart því.“

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun er Costco enn ódýrast með 210,40 krónur, en Atlantsolía hefur lengi selt eldsneyti við Kaplakrika, og nú til viðbótar á Sprengisandi, krónu dýrar eða á 211,40 krónur. Verðlækkun Orkunnar á Dalvegi og Reykjavíkurvegi færði verðið þar niður í 211,3 krónur á bensínlítrann og 201,9 krónur dísillíterinn.

Ef taldar eru saman eldsneytisstöðvar Costco, Atlantsolíu, Orkunnar, Dælunnar og ÓB sem bjóða nú lægra verð en gengur og gerist eru þær nú orðnar 12 í heildina á höfuðborgarsvæðinu, það er 11 utan stöð Costco, sem einungis Costco korthafar geta notað.