Kostnaður við dýpkun Landeyjahafnar frá opnun hafnarinnar árið 2011 nemur tæplega 2,6 milljörðum króna að því er fram kemur í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra , við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata.

Þá hafa rannsóknir við höfnina kostað 277 milljónir króna og stofnkostnaður hafnarinnar nemur um 1,8 milljörðum króna. Samanlagt hefur Landeyjahöfn með stofnkostnaði, rannsóknum og dýpunum kostað 4,6 milljarða króna.

Hægt hefur verið að nota höfnina mun færri daga á ári og mun meira af sandi hefur þurft að dæla úr á höfninni en gert var ráð fyrir í upphafi. Nýr Herjólfur sem vonast er að komi til landsins síðar á þessu ári verður grunnristara og með skrúfubúnaði sem á að auðvelda skipstjórum að stýra við erfiðar aðstæður. Því er búist við að nýting Landeyjahafnar muni batna nokkuð þegar nýtt skip verður tekið í notkun.