Samtök atvinnulífsins, SA, og Viðskiptaráð Íslands, VÍ, hafa svarað yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins sem birtist fyrr í dag undir titlinum „Hagsmunasamtök mega ekki taka þátt í umfjöllun um verð“.  Samtökin telja að eftirlitið sé þarna komið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt.

„Hversu langt má ganga? Hverjir mega tjá sig? Verða settar skorður á Seðlabankann að tjá sig um verðlag í landinu? Eða greiningaraðila, t.d. innan viðskiptabankanna? Mega hagsmunasamtök fyrirtækja tjá sig um vaxtahækkanir? ,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu SA og VÍ.

Samtökin segja eðlilegt að þau ræði um ýmis mál sem tengjast félagsmönnum sínum og íslensku atvinnulífi á borð við launakjör, kvaðir stjórnvalda og þróun hrávöruverðs sem öll hafa áhrif á almennt verðlag. Slík umræða feli hvorki í sér brot á samkeppnislögum né hvetji til þess.

„Í raun er óumflýjanlegt að hagsmunasamtök fyrirtækja láti sig verðlag í landinu varða þegar ýmsar kvaðir sem stjórnvöld setja hafa áhrif á verðlag á þeim vörum og þjónustu sem félagsmenn þeirra bjóða upp á,“ segir í tilkynningu sem birtist á vef SA.

Bent er á að SA standi fyrir ársfjórðungslegri könnun í samstarfi við Seðlabanka Íslands um stöðu og horfur í efnahagslífinu

„Á að skilja tilkynningu Samkeppniseftirlitsins sem svo að hagsmunasamtök fyrirtækja megi ekki lengur tjá sig um efni þessarar mikilvægu könnunar?“

Bannað að tjá sig um efnahagslegar staðreyndir?

Í tilkynningunni sem SKE sendi frá sér fyrr í dag brýndi stofnunin fyrir forsvarsmönnum hagsmunasamtaka að „taka ekki þátt í umfjöllun sem tengist verðlagningu og annarri markaðshegðun fyrirtækja“.

Eftirlitið minntist sérstaklega á ummæli Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra SVÞ, í Viðskiptablaðinu um að „það verði áfram þrýstingur á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu“ og að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, hafi sagt í kvöldfréttum RÚV að það væri „mjög líklegt að [vöru]skorturinn til skamms tíma muni valda verðhækkunum alla vega á einhverjum vöruflokkum“.

SA og VÍ segja að í þeim tilfellum sem Samkeppniseftirlitið vísar í sé einungis verið að ræða lýsingar á opinberum hagtölum en ekki hvatningu til verðhækkana.

„Að hrávöruverð og erlend verðbólguþróun almennt hafi áhrif á neysluverð í einstaka löndum er vel þekkt staðreynd í þjóðhagfræði. Það er einnig þekkt að slíkar verðbreytingar komi fram með tímatöf.“

Samtökin segja að með þessari yfirlýsingu gangi eftirlitið „gegn upplýstri umræðu í landinu ef banna á aðilum að tjá sig um efnahagslegar staðreyndir og það sem rannsóknir hafa sýnt fram á áratugum saman“.

Auk þess er bent á að samkvæmt markmiði ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um að verðbólga skuli vera sem næst 2,5%, sem felur í sér að verðlag á neysluvörum muni samkvæmt hinu opinbera hækka að jafnaði. „Ef fyrirtæki og félög sem þau tilheyra mega ekki tjá sig um það sem samræmist þessu opinbera markmiði er fokið í flest skjól.“