Fyrrum fjármálafulltrúi og aðalbókari sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt. Þar af eru 12 mánuðir skilorðsbundnir. Fjármálafulltrúinn, ríflega fertug kona, var jafnframt dæmd til að endurgreiða sveitarfélaginu 26 milljónir króna.

„Brot ákærðu er stórfellt og er framið í opinberu starfi," segir í dómnum.

Konan byrjaði að draga sér fá árið 2009 og gerði það í fjögur ár eða til ársins 2013. Hún millifærða misháar upphæðir af reikningi í eigu sveitarfélagsins, reikningi í eigu Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra og reikningi í eigu Byggðasafns Skagfirðinga yfir á reikninga í sinni eigu.  Samtals voru millifærslurnar 76 talsins og námu þær frá 25 þúsund krónum upp í 7,1 milljón.

Upp komst um málið þegar verið var að vinna við ársreikning sveitarfélagsins.

Konan játaði brot sín fyrir dómi og var það virt til refsilækkunar. Hún sagðist haldin spilafíkn og hafa þjáðst af þunglyndi árum saman.